14.9.2007 | 15:55
Eimskip gerist máttarstólpi
Í dag skrifuðu Baldur Guðnason forstjóri Eimskips og Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar undir samstarfssamning. Með samningnum gerist Eimskip máttarstólpi leikhússins til framtíðar og í vetur verður Eimskip samstarfsaðili við uppsetningu leiksýningarinnar Fló á skinni. Fyrirtækin áttu áður í gjöfulu samstarfi við uppsetningu sýninganna Maríubjallan og Herra Kolbert en báðar hlutu einróma lof, mikla aðsókn og fjölda tilnefninga til Íslensku leiklistarverðlaunanna; Grímunnar.
Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips sagði af þessu tilefni: Eimskip leggur metnað sinn í að styrkja verðug málefni og í framhaldi af vel heppnuðu samstarfi við Leikfélag Akureyrar á síðustu tveimur árum er það okkur mikill heiður að gerast máttarstólpi leikhússins. Leikfélag Akureyrar hefur blómstrað undanfarin ár og það er von mín að með framlagi okkar muni leikhússtarfið halda áfram að vaxa og dafna.
Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA sagði: Samstarf við Eimskip er leikhúsinu afar mikilvægt. Á undanförnum árum hefur starfsemi leikhússins aukist umtalsvert en það hefði ekki verið mögulegt nema með öflugu samstarfi við máttarstólpa leikhússins. Þeirra innkoma til viðbótar við öflugan stuðning hins opinbera hefur gert leikhúsinu kleift að sækja fram, fjölga leikhúsgestum og ráðast í viðameiri og metnaðarfyllri verkefni en fyrr. Við horfum með tilhlökkun til samstarfs við Eimskip á næstu árum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.