Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Fimmþúsundasti gesturinn

gestur nr. 5000 óvitar.jpg Í kvöld kom gestur númer 5000 í leikhúsið að sjá Óvita á aðeins rétt rúmum mánuði. Sá heppni heitir Patrik Freyr Guðmundsson og er hann 13 ára gamall. Hann kom í leikhúsið ásamt foreldrum sínum og yngri bróður. Afinn og amman í sýningunni, Elmar Blær og Sólrún Svava, færðu Patriki góðar gjafir, stóran blómvönd, gjafakort fyrir alla fjölskylduna í leikhúsið síðar á árinu, Óvitageisladisk, Óvitabók og Óvitaboli fyrir þá bræður.


Uppsetning LA á Óvitum hefur notið gríðarlegra vinsælda og sem fyrr segir mætti gestur númer 5000 í leikhúsið í kvöld. Að auki hafa um 4000 miðar verið seldir á næstu sýningar í október og nóvember en leikhúsið hefur bætt inn fjölda aukasýninga til að bregðast við hinni miklu aðsókn. Leikhúsið hefur gert breytingar á sýningaáætlun leikársins til að hliðra til öðrum sýningum og lengja sýningatímabil Óvita.

Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar voru frumsýndir þann 15. september sl. hjá Leikfélagi Akureyrar. Sýningunni var afar vel tekið af áhorfendum og gagnrýnendum. Í Óvitum leika börn fullorðna og fullorðnir leika börnin en Jón Ólafsson samdi tónlist við leikritið fyrir uppsetningu LA.

Troðfullt hefur verið á öll sýningarkvöld Óvita en þegar hafa verið sýndar 25 sýningar auk forsýninga. Nokkuð er síðan uppselt var orðið út októbermánuð og eru sýningar í nóvember nú óðum að fyllast. Til stóð að ljúka sýningum á Óvitum í byrjun desember til að rýma sviðið fyrir Fló á skinni sem frumsýna átti 29. desember. Til að bregðast við hinni miklu eftirspurn hefur verið ákveðið að framlengja sýningatímabil Óvita út desember og seinka frumsýningu á Fló á skinni til 26. janúar. Þegar er sala hafin á aukasýningar í desember.

Aðsóknarmesta sýning LA frá upphafi er Fullkomið brúðkaup sem frumsýnd var árið 2005 en þá sýningu sáu 12.000 gestir á Akureyri auk fjölda gesta sem sáu sýninguna í Reykjavík. Að gefnu tilefni skal tekið fram að ekki stendur til að Óvitar verði sýndir í höfuðborginni.

Þann 2. nóvember frumsýnir LA Ökutíma en þegar er uppselt á 16 sýningar verksins. Þá hefur áskriftarkortasala aldrei verið meiri en þegar hafa 45% fleiri tryggt sér áskriftarkort en í fyrra en þá var metsala í áskriftarkortum. Aðsókn að sýningum LA hefur aldrei verið meiri en síðustu þrjú leikár.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband