Leita í fréttum mbl.is

Afbragðs Ökutímadómar

Afbragðs Ökutímadómar

Ökutímum var gríðarlega vel tekið á frumsýningu og ekki hafa gagnrýnendur legið á hrifningu sinni.

Á baksíðu Morgunblaðsins mánudaginn 5/11 var meðfylgjandi frétt og tilvísun í dóm Maríu Kristjánsdóttur:

Stigið feti framar

María Kristjánsdóttir segir í dómi sínum um leikritið Ökutíma að þar hafi íslenskt leikhús stigið feti framar en aðrir í umfjöllun sinni um eitt viðkvæmasta samfélgsvandamál samtímans, sifjaspell. Fyrir það eitt megi stjörnum rigna yfir sýninguna. Tónlistarkonan Lay Low sé eins og seiðkona í sýningunni og skyggi á aðalleikarana með undurfögrum söng sínum. Allt blómstri í höndum Leikfélags Akureyrar.

Í dómnum segir María:  “Þetta er falleg sýning... ákaflega sterk... með því að taka Ökutíma til sýningar hefur íslenskt leikhús stigið feti framar... Leikfélag Akureyrar – þar sem allt blómstrar og grær... megi stjörnum rigna yfir sýninguna.”

Sólveig Lára, gagnrýnandi RÚV sagði þann 5/11: “Ég er djúpt snortin... Stórkostlegur leiksigur... mjög áhrifamikil sýning”

Jón Viðar Jónsson, DV sagði þann 6/11: “LA nýtur nú vinsælda og virðingar í samfélaginu sem önnur leikhús mega öfunda það af... mjög vel unnin”

Elísabet Brekkan sagði í Fréttablaðinu þann 6/11: “Þetta er stórgóð sýning í einkar vel heppnaðri umgjörð. Þröstur Leó sparar ekkert af þeim loga sem einkennir nærveru hans og leikstíl í túlkun sinni á hinum aumkunarverða frænda... og til er innistæða fyrir öllu sem hann segir... nær hún fantagóðum tökum á... hreint óborganleg... Lýsing Björns Bergsteins er ekki aðeins falleg heldur undirstrikar hún einnig ömurleikann... Leikmynd og búningar Filippíu Elísdóttur voru í andan tímans og val á efninu frábært... mjög áhugaverð sýning og þó oft væri hlegið var einnig grátið. 

Í Landpostinum segir Vigdís Arna Jónsdóttir m.a.: "djúpt og áhrifamikið... rússíbanaferð... enn einn sigurinn!” Hér má sjá dóminn í heild sinni: http://www.landpostur.is/news/leyndarmal__lygi_og_losti_hja_la/

Ingibjörg Sigurðardóttir segir í Kistinunni m.a.: “stórkostlegan samleik...beint í hjartastað...”. hér má lesa dóminn í heild sinni: http://www.kistan.is/default.asp?sid_id=33389&tId=2&fre_id=63686&meira=1 

Júlíus Júlíusson á Dagur.net segir m.a.: “magnaða sýningu... opnar augu og snertir, leikhús sem skiptir máli” JJ, Dagur.net. Hér má lesa dóminn í heild sinni: http://www.dagur.net/?i=4&f=7&o=5638 

 


Fimmþúsundasti gesturinn

gestur nr. 5000 óvitar.jpg Í kvöld kom gestur númer 5000 í leikhúsið að sjá Óvita á aðeins rétt rúmum mánuði. Sá heppni heitir Patrik Freyr Guðmundsson og er hann 13 ára gamall. Hann kom í leikhúsið ásamt foreldrum sínum og yngri bróður. Afinn og amman í sýningunni, Elmar Blær og Sólrún Svava, færðu Patriki góðar gjafir, stóran blómvönd, gjafakort fyrir alla fjölskylduna í leikhúsið síðar á árinu, Óvitageisladisk, Óvitabók og Óvitaboli fyrir þá bræður.


Uppsetning LA á Óvitum hefur notið gríðarlegra vinsælda og sem fyrr segir mætti gestur númer 5000 í leikhúsið í kvöld. Að auki hafa um 4000 miðar verið seldir á næstu sýningar í október og nóvember en leikhúsið hefur bætt inn fjölda aukasýninga til að bregðast við hinni miklu aðsókn. Leikhúsið hefur gert breytingar á sýningaáætlun leikársins til að hliðra til öðrum sýningum og lengja sýningatímabil Óvita.

Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar voru frumsýndir þann 15. september sl. hjá Leikfélagi Akureyrar. Sýningunni var afar vel tekið af áhorfendum og gagnrýnendum. Í Óvitum leika börn fullorðna og fullorðnir leika börnin en Jón Ólafsson samdi tónlist við leikritið fyrir uppsetningu LA.

Troðfullt hefur verið á öll sýningarkvöld Óvita en þegar hafa verið sýndar 25 sýningar auk forsýninga. Nokkuð er síðan uppselt var orðið út októbermánuð og eru sýningar í nóvember nú óðum að fyllast. Til stóð að ljúka sýningum á Óvitum í byrjun desember til að rýma sviðið fyrir Fló á skinni sem frumsýna átti 29. desember. Til að bregðast við hinni miklu eftirspurn hefur verið ákveðið að framlengja sýningatímabil Óvita út desember og seinka frumsýningu á Fló á skinni til 26. janúar. Þegar er sala hafin á aukasýningar í desember.

Aðsóknarmesta sýning LA frá upphafi er Fullkomið brúðkaup sem frumsýnd var árið 2005 en þá sýningu sáu 12.000 gestir á Akureyri auk fjölda gesta sem sáu sýninguna í Reykjavík. Að gefnu tilefni skal tekið fram að ekki stendur til að Óvitar verði sýndir í höfuðborginni.

Þann 2. nóvember frumsýnir LA Ökutíma en þegar er uppselt á 16 sýningar verksins. Þá hefur áskriftarkortasala aldrei verið meiri en þegar hafa 45% fleiri tryggt sér áskriftarkort en í fyrra en þá var metsala í áskriftarkortum. Aðsókn að sýningum LA hefur aldrei verið meiri en síðustu þrjú leikár.


Afbragðs Óvita-dómar

Uppsetning LA á Óvitum fellur sannarlega í kramið. Áhorfendur hafa fagnað sýningunni ákaft á þeim sýningum sem liðnar eru, miðasala er með eindæmum og fjölda aukasýninga verið bætt við. Nú hafa fyrstu dómar birst en þeir eru allir á einn veg þar sem sýningunni er hælt á hvert reipi. Meðal þess sem gagnrýnendur hafa sagt er:

“Góð skemmtun fyrir unga og aldna... * * * * (fjórar stjörnur)" EB, Fréttablaðið, 19/9/07

“góð afþreying sem mun gleðja marga” MR Morgunblaðið  18/9/07

“Gengur hundrað prósent upp... galdrar og töfrar... snilldarlega gert...” SLG, RÚV 17/9/07

“Leiksýningin er hröð, skemmtileg og fyndin... er leikhúsinu og öllum aðstandendum til sóma.” VAJ, landpostur.is 17/9/07

 


Óvitar - aukasýningar!

veggspjaldMiðasala á Óvita er með ólíkindum. Uppselt var orðið fram í miðjan október en til að bregðast við hinni miklu eftirspurn var fyrr í dag bætt við sex nýjum aukasýningum. Sú fyrsta er strax næsta sunnudag og þar er á ferðinni fyrsta eftirmiðdagssýningin á verkinu en hún verður kl. 16.00. Miðasala er hafin á allar auksýningar og aðrar sýningar síðar í október. Miðarnir rjúka út og því um að gera að hafa hröð handtök. Fyrstir koma - fyrstir fá! Miðasalan er opin allan sólarhringinn á netinu, en þú getur keypt miða með því að smella hér, en miðasala í síma 4 600 200 er opin frá kl. 13-17 alla virka daga.

Óvitar frumsýndir

Óvitum var afar vel tekið á frumsýningu í gærkvöldi og ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna að lokinni sýningu. Listrænum stjórnendum, leikurum og barnaleikurum var fagnað ákaft en allt ætlaði um koll að keyra þegar Guðrún Helgadóttir steig á svið. Mikill áhugi er á Óvitum og þegar er uppselt á 10 sýningar verksins og sala langt komin á næstu átta.

Óvitar! eftir Guðrúnu Helgadóttur

Frábær fjölskyldusýning!

Frumsýning 15. september. Miðasala í fullum gangi í síma 4 600 200 og www.leikfelag.is

Í Óvitum er allt á hvolfi. Þar minnkar maður með aldrinum, fullorðnir leika börn og börnin leika þá fullorðnu. Það er þó ekki fyrr en Finnur strýkur að heiman sem allt fer endanlega í háaloft. Lögreglan og hjálparsveitirnar hefja leit, pabbi og mamma eru miður sín og jafnvel skólastjórinn brestur í grát. En í miðjum látunum eignast Finnur nýjan vin og uppgötvar ýmislegt um lífið og hvernig það er að verða lítill.

Smelltu hér til að hlusta á lagið "Þá var trallað". 

Smelltu hér til að fá leikskránna á pdf-formi.

Þetta margrómaða leikrit Guðrúnar Helgadóttur er nú loks sýnt á Akureyri og nú með tónlist sem Jón Ólafsson hefur samið af sinni alkunnu snilld. Leikarinn ástsæli Sigurður Sigurjónsson leikstýrir glæsilegum hópi atvinnuleikara og hæfileikaríkra barna.  Frábær skemmtun fyrir afa og ömmur, pabba og mömmur og börn - stór og smá.

Höfundur: Guðrún Helgadóttir
Leikstjórn: Sigurður Sigurjónsson
Söngtextar: Davíð Þór Jónsson
Tónlist og tónlistarstjórn: Jón Ólafsson
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarsson
Búningar: María Ólafsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Hreyfingar: Ástrós Gunnarsdóttir
Gervi: Ragna Fossberg
Hljóðhönnun: Gunnar Sigurbjörnsson

Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Þráinn Karlsson, Alda Ólína Arnarsdóttir, Arna Ýr Karelsdóttir, Arnar Þór Fylkisson, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir,  Elmar Blær Arnarsson, Fjölnir Brynjarsson, Friðrik Karlsson, Gyða Jóhannesdóttir, Jóhanna Þorgilsdóttir, Kristín Alfa Arnórsdóttir, Magnús Ingi Birkisson, My Adina Lottisdóttir, Ólafur Göran Grós Ólafsson, Ólafur Ingi Sigurðarson, Rán Ringsted, Sólrún Svava Kjartansdóttir, Valentína Björk Hauksdóttir

Tónlistin úr verkinu kemur út á geisladiski og leikritið á bók á vegum Eddu útgáfu í byrjun september.

Sett upp í samstarfi við Flugfélag Íslands, Norðurorku, KEA hótel


Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Að lokinni frumsýningu á Óvitum í gærkvöldi steig Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á svið og tilkynnti að Velferðasjóður barna hefði stofnað Barnabókaverðlaun sem nefnd yrðu “Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur”.  Fyrsta viðurkenningin úr sjóðnum fer til Guðrúnar sjálfrar en hún vissi ekkert um áformin sem komu henni algerlega í opna skjöldu. Auk viðurkenningar hlaut hún peningaverðlaun úr sjóðnum. Til stendur að veita viðurkenningu árlega til höfundar sem þykir hafa skarað fram úr í barnabókmenntum.

Mikill áhugi er á Óvitum og þegar er uppselt á 10 sýningar verksins og sala langt komin á næstu átta.


Myndbandsbrot úr Óvitum!

 


Uppselt í Lundúnaferð

Nú er orðið uppselt í leikhúsferð LA til London með Expressferðum. Í fyrstu ferðinni í fyrra komust einnig færri að en vildu. Flogið verður beint frá Akureyri þann 16. nóvember og komið til baka þann 19. Farið verður á tvær sýningar, á söngleikinn vinsæla, Mary Poppins og aðra sýningu sem enn hefur ekki verið valin. Hópurinn fer saman út að borða eitt kvöldið og þátttakendum býðst að fara í skoðunarferð um borgina. Fararstjóri í leikhúsferðum er Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA. Expressferðir sjá um skráningu, www.expressferdir.is.


Geisladiskur kominn út

Í dag kom út ný geislaplata með tónlistinni úr Óvitum. Hér er á ferðinni glæný tónlist sem Jón Ólafsson samdi fyrir uppsetninguna við nýja texta Davíðs Þórs Jónssonar. Tónlistin er létt og grípandi og er í anda tónlistar hljómsveitarinnar Nýdönsk og Hrekkjusvínanna sem naut vinsælda hér um árið.

Diskurinn hefur að geyma 11 lög sem fyrst eru flutt með söng en á eftir eru þau endurtekin án söngs þannig að allir geta sungið með. Flytjendur eru leikarar, börn og fullorðnir í sýningunni. Diskurinn inniheldur meðal annars lögin Þá var trallað, Ekki fullreynt og Fullkomna fólkið. Þá var trallað er þegar komið í spilun á Rás 2 og nýtur vinsælda.

Diskurinn er kominn á markað og fáanlegur í verslunum um land allt. Diskurinn er einnig seldur á kostakjörum í miðasölu LA. - Fáðu þér eintak!

Útgefandi er Leikfélag Akureyrar en dreifing er í höndum Senu.


Eimskip gerist máttarstólpi

eimskip undirritun_web.jpg

Í dag skrifuðu Baldur Guðnason forstjóri Eimskips og Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar undir samstarfssamning. Með samningnum gerist Eimskip máttarstólpi leikhússins til framtíðar og í vetur verður Eimskip samstarfsaðili við uppsetningu leiksýningarinnar Fló á skinni.  Fyrirtækin áttu áður í gjöfulu samstarfi við uppsetningu sýninganna Maríubjallan og Herra Kolbert en báðar hlutu einróma lof, mikla aðsókn og fjölda tilnefninga til Íslensku leiklistarverðlaunanna; Grímunnar.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips sagði af þessu tilefni: “Eimskip leggur metnað sinn í að styrkja verðug málefni og í framhaldi af vel heppnuðu samstarfi við Leikfélag Akureyrar á síðustu tveimur árum er það okkur mikill heiður að gerast máttarstólpi leikhússins. Leikfélag Akureyrar hefur blómstrað undanfarin ár og það er von mín að með framlagi okkar muni leikhússtarfið halda áfram að vaxa og dafna.”

Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA sagði: “Samstarf við Eimskip er leikhúsinu afar mikilvægt. Á undanförnum árum hefur starfsemi leikhússins aukist umtalsvert en það hefði ekki verið mögulegt nema með öflugu samstarfi við máttarstólpa leikhússins. Þeirra innkoma til viðbótar við öflugan stuðning hins opinbera hefur gert leikhúsinu kleift að sækja fram, fjölga leikhúsgestum og ráðast í viðameiri og metnaðarfyllri verkefni en fyrr. Við horfum með tilhlökkun til samstarfs við Eimskip á næstu árum.” 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband